![Teikning af Stíganda eftir Halldór Pétursson, sem Hestamannafélagið Léttfeti gaf Hestamannafélaginu …]()
Hesturinn hefur fylgt manninum lengur en sögur ná til og verið notaðir til margra verka í gegnum tíðina. Ómissandi þóttu þeir sem vinnudýr og í hernaði gátu þeir ráðið úrslitum um hver færi með sigur af hólmi. Þeir voru notaðir sem reiðskjótar langt fram á síðustu öld en í dag eru þeir oftast haldnir fólki til afþreyingar og yndisauka þó ekki megi gleyma því að notkun þeirra í göngum og smalamennsku er enn gríðarlega mikilvæg. Þá er saga hestakeppna orðin ansi löng á Íslandi, allt frá skeiðkeppni Þóris dúfunefs og Arnar landshornaflakkara á Kili í árdaga landnáms, hestaati því sem sagt er frá í Íslendingasögum, til gæðingakeppna nútímans.